Almennir Skilmálar

Almennir SKILMÁLAR HERJÓLFS OHF.

 

Almennir skilmálar Herjólfs OHF um flutning á farþegum og farangri.

Þessir skilmálar skulu gilda um siglingar og flutninga á farþegum og farangri með Vestmannaeyjaferjunni m/s Herjólfi eða öðru skipi sem kemur í stað m/s Herjólfs.

1. – Skilgreiningar.

 

Í skilmálum þessum skulu eftirfarandi hugtök hafa þessa merkingu:

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur OHF, hér eftir nefnt „félagið” þýðir Vestmannaeyjaferjan Herjólfur OHF, kt. 420718-1280, Báskersbryggja, 900 Vestmannaeyjar

“Farþegi” þýðir persóna sem pantar og/eða kaupir flutning með Herjólfi og/eða persóna sem flytja á eða verður fluttur með skipinu samkvæmt farmsamningi og enn fremur sá sem með heimild Herjólfs OHF fylgir ökutæki eða lifandi dýri sem háð er samningi um vöruflutninga og/eða eigandi ökutækis sem flutt er án tengsla við samning um farþegaflutninga.

“Farangur” þýðir sérhver hlutur, þ.m.t. ökutæki, sem fluttur er með Herjólfi í tengslum við samning um farþegaflutninga og ökutæki sem flutt eru án tengsla við samning um farþegaflutninga.

“Handfarangur” þýðir farangur sem farþegi hefur í vörslum sínum eða í klefa sínum eða sem hann flytur með sér í eða á ökutæki sínu.

“Herjólfur eða skipið” þýðir skipið m/s Herjólfur eða skip sem kemur í stað þess. Félaginu er þó heimilt að nota annað skip til flutninganna án sérstakrar tilkynningar til farþega.

“SDR” er sú alþjóðlega verðmæliseining sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn notar og skal reikna verðmæliseiningu þessa til íslensks gjaldeyris eftir gengi þess dags er greiðsla fer fram.

“Undirverktaki” þýðir beinir eða óbeinir undirverktakar sem og starfsmenn, umboðsmenn, fulltrúar og undirverktakar þeirra.

2. – Samningur við félagið.

 

Um leið og farþegi bókar ferð með Herjólfi eða ferð er bókuð fyrir hans hönd og félagið staðfestir bókunina er kominn á flutningssamningur á milli félagsins og viðkomandi farþega um flutning á farþegum og farangri með Herjólfi (hér eftir nefndur samningurinn).

Félaginu er heimilt að taka við bókun sem gerð er með rafrænum hætti.  Félaginu er heimilt að staðfesta slíka bókun með rafrænum hætti og er þá kominn á flutningssamningur á milli aðila.

Ákvæði 8. og 9. gr. laga nr. 46/2000 um húsgöngu- og fjarsölusamninga um rétt neytanda til að falla frá samningi gilda ekki í lögskiptum félagsins og farþega, sbr. 10. gr. laganna.

Skilmálar þessir skulu felldir inn í og skulu vera hluti af framangreindum samningi.  Með því að bóka ferð með Herjólfi staðfestir farþegi að hann hafi lesið þessa skilmála og samþykkir að þeir gildi um réttarsamband félagsins við sig og alla þá sem hann bókar fyrir, enda lýsir farþegi því yfir með bókun sinni að hann hafi umboð þeirra til þess að bóka ferð með Herjólfi.

3. – V. kafli siglingalaga nr. 34/1985.

 

Ákvæði V. kafla siglingalaga nr. 34/1985 um flutning á farþegum og farangri skulu gilda um alla flutninga félagsins á farþegum og farangri með Herjólfi, nema annað komi fram í þessum skilmálum, en ákvæði þessi eru felld inn í skilmálana og skulu vera hluti af þeim.

4. – Flutningur.

 

Farþega ber að fullnægja ákvæðum laga, reglugerða og annarra reglna um ferðalög, farangur og flutning á farþegum og farangri, eftir því sem við á hverju sinni.

Samkvæmt reglugerð um skráningu einstaklinga sem sigla með farþegaskipum nr. 659/2000 ber félagið í öryggisskyni að safna saman, skrá og varðveita tilteknar persónuupplýsingar um farþega.  Með vísan til þess ber farþega að veita félaginu umræddar upplýsingar við bókun eða í síðasta lagi áður en þeir ganga um borð í skipið.

Farþega ber að mæta í brottfararhöfn í síðasta lagi 30 mínútum fyrir áætlaða brottför Herjólfs.

Farþega ber að fara eftir þeim reglum sem gilda um innritun farþega og farangurs áður en þeir ganga um borð í skipið og veita þær upplýsingar um farangur og handfarangur sem félagið fer fram á.

Félagið skal gefa út farmiða í brottfararhöfn og eða annarsstaðar gegn staðfestingu farþega á samningnum, í því formi sem félagið samþykkir, áður en farþegi gengur um borð í Herjólf og/eða ökutæki er ekið um borð í skipið.

Farþegi skal framvísa farmiða um leið og hann gengur um borð í Herjólf í brottfararhöfn og frá borði í komuhöfn og/eða hann ekur ökutæki um borð í Herjólf í brottfararhöfn og frá borði í komuhöfn sem og öðrum nauðsynlegum skjölum og skilríkjum ef farið er fram á það.

Farþegi skal sjálfur færa allan handfarangur og farangur sinn um borð í skipið, nema um annað sé samið.

Félaginu er heimilt að flytja farangur og handfarangur á þilfari.

Ökutæki er flutt á bílþilfari. Einungis bílstjóra ökutækis er heimilt að aka ökutæki inn á bílþilfar.  Aðrir farþegar sem fylgja ökutækinu skulu nota landgang skipsins til þess að komast um og frá borði.  Þegar ökutæki hefur verið fundið staður á bílþilfari skal ökumaður stöðva vél þess, setja það í handbremsu, hafa í gír eða í “park” á sjálfskiptu ökutæki, læsa því, slökkva á þjófavörn og framfylgja öðrum fyrirmælum félagsins í sambandi við ökutækið.  Ef um er að ræða tengivagn, svo sem tjaldvagn, fellihýsi eða hjólhýsi, sem hefur að geyma gaskút ber farþega að skrúfa vel fyrir gas áður en ferð hefst.  Um leið og ökutæki er tilbúið til flutnings ber ökumanni að yfirgefa bílþilfar. Á meðan ferð stendur er ökumanni og öðrum farþegum ekki heimilt að fara inn á bílþilfar og í ökutæki nema með sérstöku leyfi áhafnar.

Handfarangur og annar farangur en ökutæki skal geymdur hjá farþega eða í opnu eftirlitslausu geymslurými meðan á ferð stendur á áhættu og ábyrgð farþega.

Farþega ber að fara eftir öllum öryggisreglum og öðrum reglum sem gilda um borð í Herjólfi og hlýða öllum fyrirmælum skipstjóra og áhafnar skipsins.

Farþegum ber að fylgjast með öryggismyndbandi sem sýnt er við upphaf ferðar og tileinka sé þær öryggisreglur sem þar eru kynntar.  Jafnframt ber farþegum að kynna sér bæklinga um öryggismál, sem liggja frammi í afgreiðslum og um borð í skipinu.

Farþega ber að taka tillit til annarra farþega og áhafnar skipsins og haga sér í samræmi við góðar venjur.

Farþega og ökutæki er ekki heimilt að fara frá borði í komuhöfn fyrr en áhöfn hefur gefið slíka heimild.

Telji félagið að handfarangur og/eða farangur sé ekki hæfur til flutnings áskilur félagið sér rétt til að flytja hann frá borði og rifta samningnum án nokkurrar bótaskyldu og án endurgreiðslu fargjalds.

Komi til þess að farþegi brjóti framangreindar reglur eða Herjólfur OHF hefur ástæðu til að ætla að hann muni gera það áskilur félagið sér rétt til að rifta samningnum án nokkurrar bótaskyldu og án endurgreiðslu fargjalds.

5. – Fargjald.

 

Farþega ber að greiða fargjald samkvæmt gildandi gjaldskrá félagsins hverju sinni.

Fargjald ber að greiða að fullu áður en farþegi gengur um borð í skip í brottfararhöfn eða áður en farangur er færður um borð í skip í brottfararhöfn, nema um annað sé samið. Að öðrum kosti fellur niður skylda félagsins til að flytja farþega og/eða farangur.

Félagið skal eiga haldsrétt og samningsveð, eftir því sem við á, í öllum farangri og handfarangri, sem er í vörslu félagsins, vegna allra krafna þess á hendur farþega eða eiganda hans vegna flutningsins og annarra krafna á hendur farþega eða eiganda hans sem tengjast ekki flutningnum á neinn hátt.

6. – Ábyrgð félagsins.

 

6.1. – Ábyrgð og upphæð bóta.

Félagið ber skaðabótaábyrgð á farþegum, handfarangri og farangri meðan á flutningi stendur í samræmi við ákvæði V. kafla siglingalaga nr. 34/1985, nema annað komi fram í þessum skilmálum.

Ábyrgð félagsins er takmörkuð samkvæmt siglingalögum og er farþegum af þeim sökum bent á að kaupa vátryggingar fyrir tjóni sem þeir kunna að verða fyrir meðan á flutningi stendur.

Félagið ber ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á óbeinu eða afleiddu tjóni eða ágóðatapi.  Félagið  ber hvorki ábyrgð á tapi eða tjóni á peningum, verðbréfum eða öðrum verðmætum né ábyrgð á greiðslu bóta vegna fornmunaverðmætis, tilfinningalegra verðmæta eða annarra sérstakra verðmæta.  Félagið ber heldur ekki ábyrgð á lifandi dýrum sem flutt eru.

Ekki skal koma til greiðslu vaxta af kröfum á hendur félagsins fyrr en frá uppkvaðningu dóms.

6.2. – Upphaf og lok ábyrgðar.

Hvað varðar annars vegar farþega og hins vegar handfarangur og/eða farangur, sem farþegi hefur í sínum vörslum meðan á ferð stendur, skal upphaf ábyrgðar (ef einhver er) miðast við þann tíma þegar farþegi stígur í landgang skips í brottfararhöfn og lok ábyrgðar við þann tíma þegar farþegi stígur úr landgangi skips í komuhöfn.

Hvað varðar farangur, sem afhentur hefur verið félaginu til flutnings, skal upphaf ábyrgðar (ef einhver er) miðast við þann tíma þegar starfsmenn eða umboðsmenn félagsins taka við honum í landi í brottfararhöfn og lok ábyrgðar við þann tíma þegar hann er tilbúinn til afhendingar í komuhöfn, en frá þeim tíma er farangurinn á áhættu og ábyrgð farþega eða eiganda hans.  Farþegi eða eigandi slíks farangurs skal tafarlaust taka við honum þegar farangurinn er tilbúinn til afhendingar í komuhöfn.  Taki farþegi eða eigandi ekki við farangri samkvæmt framansögðu er félaginu heimilt að færa hann í geymslu á kostnað, ábyrgð og áhættu farþega eða eiganda.

6.3. – Tilkynningar og fyrning.

Verði tjón á handfarangri ber farþega að tilkynna félaginu það skriflega jafnskjótt og þess verður vart en þó aldrei síðar en farþegi fer frá borði í komuhöfn.

Verði sýnilegt tjón á farangri ber farþega að tilkynna það skriflega jafnskjótt og þess verður vart en þó aldrei síðar en við móttöku í landi í komuhöfn.

Sé ekki um að ræða sýnilegar skemmdir á farangri eða farangur tapast ber farþega að tilkynna það skriflega jafnskjótt og þess verður vart en þó aldrei síðar en 15 dögum frá afhendingu í landi í komuhöfn eða ef um tap er að ræða frá þeim degi er afhenda átti farangurinn.

Nú er tjón ekki tilkynnt áður en framangreindir tímafrestir eru liðnir og fellur þá niður sérhver krafa á félagið.

Réttur til skaðabóta á hendur félaginu fyrnist samkvæmt 3. til 5. tölulið 215. gr. siglingalaga nr. 34/1985.

6.4. – Siglingatími og tafir.

Félagið mun gera sitt ýtrasta til að flytja farþega og farangur í samræmi við siglingaáætlun.

Félagið ber þó ekki ábyrgð á siglingatímum, í siglingaáætlun eða annars staðar, og eru þeir ekki hluti af þessum skilmálum eða samningnum.

Félaginu er heimilt að breyta siglingaáætlun án fyrirvara ef nauðsyn krefur.

Félagið ber ekki ábyrgð á niðurfellingu ferðar eða tafa vegna óviðráðanlegra orsaka, svo sem vegna veður- og sjóskilyrða, hryðjuverka, stjórnaraðgerða, stríðs, náttúruhamfara, eldsvoða, verkfalla og annarra ástæða sem félagið ræður ekki við.

Félagið ber ekki ábyrgð á neinum beinum eða óbeinum kostnaði eða tjóni sem farþegi eða eigandi farangurs verður fyrir ef ferð er felld niður eða seinkar af óviðráðanlegum orsökum.

Félaginu er heimilt að breyta siglingatímum farþega og/eða farangurs, þar með talið að láta þá farþega og/eða farangur hafa forgang í ferð sem hafa beðið lengst eftir nýrri ferð sökum niðurfalls eða seinkunar á sinni ferð af einhverjum óviðráðanlegum orsökum.

7. – Starfsmenn og undirverktakar.

 

Félaginu er heimilt að ráða undirverktaka á hvaða skilmálum sem er til að inna af hendi þær þau verk og þá þjónustu sem félagið tekur að sér samkvæmt samningnum.

Allir starfsmenn, umboðsmenn, fulltrúar og undirverktakar félagsins sem og eigandi Herjólfs, starfsmenn, umboðsmenn, fulltrúar, undirverktakar hans skulu njóta og hafa rétt til að bera fyrir sig öll ákvæði skilmálanna, eftir því sem við á, enda gerir félagið samninginn við farþega bæði fyrir sína hönd og sem umboðsaðili og fulltrúi slíkra starfsmanna, umboðsmanna, fulltrúa, undirverktaka og eiganda.

8. – Farmflutningar og Almennir þjónustuskilmálar SVÞ.

 

Komi til þess að vara er flutt með Herjólfi, sem ekki fellur undir hugtakið farangur, skulu flutningsskilmálar félagsins fyrir fjölþáttaflutning og flutning frá höfn til hafnar, sem eru meðal annars að finna í farmbréfum félagsins, gilda um flutninginn í stað þessara skilmála um flutning á farþegum og farangri, nema um annað sé samið, hvort sem farmbréf hefur verið gefið út eða ekki.

Að því marki sem þjónusta, háttsemi eða atvik fellur ekki undir skilmála þessa um flutning á farþegum og farangri eða framangreinda flutningsskilmála félagsins skulu Almennir þjónustuskilmálar SVÞ (Samtaka verslunar og þjónustu) gilda um réttarsamband aðila.

Framangreinda skilmála er að finna á heimasíðu félagsins  www.herjolfur.is

9. – Breytingar.

 

Félagið áskilur sér rétt til að breyta öllum skilmálum, gjaldskrám og áætlunum hvenær sem er og án fyrirvara eða tilkynningar til farþega.

Engum starfsmanni, umboðsmanni, fulltrúa eða undirverktaka félagsins er heimilt að breyta, lagfæra eða fella úr gildi nokkur ákvæði þessara skilmála.

10. – Lögsaga.

 

Hverskyns deilumál sem upp koma á milli aðila og sem ekki tekst að leysa með samningum skulu rekin fyrir Héraðsdómi Suðurlands.

11. – Gildistaka.

 

Skilmálar þessir skuli taka gildi frá og með 30. mars 2019 og skulu gilda um alla flutninga á farþegum og farangri með Herjólfi eftir þann dag jafnvel þótt bókun hafi verið gerð fyrir þann tíma.

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur OHF
Kt: 420718-1280
Báskersbryggja
900 Vestmannaeyjar
481-2800
herjolfur@herjolfur.is

BÓKUNARSKILMÁLAR Herjólfs OHF.

 

Bókunarskilmálar

 

Þetta skjal inniheldur bókunarskilmála sem í gildi eru þegar bókað er í gegnum vef félagsins. Þessir samningar gilda fyrir bæði kaupendur og félagið.  Þegar bókað er í gegnum vef félagsins er nauðsynlegt að samþykkja þessa skilmála til þess að klára bókun. Ef einhverjar spurningar vakna þá vinsamlegast hafið samband  á netfangið herjolfur@herjolfur.is eða í síma 481-2800.

Breytingar á bókunum

 

Breytingar á bókun

 

Breytingar á bókun yfir á aðra tíma- og/eða dagsetningu felur í sér 500 kr í breytingargjald.

 

Afbókunarskilmálar

 

Afbókun sem gerð er með meira en 48 klukkustunda fyrirvara felur í sér endurgreiðslu að fullu fyrir utan 500 kr afbókunargjald.
Afbókun sem gerð er með minna en 24 klukkustunda fyrirvara er ekki endurgreiðanleg.

Félagið endurgreiðir ekki með millifærslu á erlendan reikning.

 

Persónuupplýsingar

 

Allar þær upplýsingar sem kaupandi gefur upp eru trúnaðarmál og eru þær einungis notaðar í bókunarkerfi félagsins og hafðar til hliðsjónar ef af einhverjum ástæðum nauðsynlegt er að hafa samband við viðkomandi. Þessar upplýsingar eru algjört trúnaðarmál og fer félagið með þær sem slíkar.

 

Bókanir

 

Um leið og kaupandinn hefur lokið við kaup á miðum mun hann fá sent bókunarform með öllum upplýsingum um ferðina.

Á bókunarforminu kemur fram nákvæmlega hvað pantað var og heildarupphæð sem verður tekin af korti kaupanda. Ef einhver mistök hafa orðið við bókun er nauðsynlegt að hafa strax samband við félagið: herjolfur@herjolfur.is og fá þau leiðrétt.

Ef að einhverjum ástæðum félagið getur ekki staðið við það sem kaupandinn bókaði þá mun félagið endurgreiða miðann að fullu eða bjóða upp á ferð á öðrum tíma. Félagið mun einnig skuldbinda sig til þess að leggja sig alla fram í að hafa samband við kaupanda til þess að láta vita af öllum breytingum sem gætu orðið. Kaupandinn gerir sér grein fyrir því að í sumum tilfellum er ekki hægt að hafa samband við þá.

Kvartanir

 

Ef kaupendur hafa einhverjar kvartanir varðandi þjónustu félagsins er mjög mikilvægt að koma þeim til skila. Einnig þurfa starfsmenn félagsins að fá tækifæri til úrbóta. Ef ekki er unnið úr þessum kvörtunum af hálfu félagsins ætti kaupandinn að hafa samband við Íslensku Ferðamálastofuna (info@icetourist.is).

Almennir skilmálar

 

Félagið áskilur sér þann rétt að breyta þessum skilmálum hvenær sem er.

 

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur OHF
Kt: 4207188-1280
Báskersbryggja
900 Vestmannaeyjar
481-2800
herjolfur@herjolfur.is